Vinarferðin 2024

Vinir Þjórsárvera standa fyrir fimm daga gönguferð um verin í sumar og er nánast fullbókað í þá ferð.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Þjórsárver, stjórnvöld fari að leikreglum – Tryggvi Felixson

Birt fyrst 22. ágúst 2013

Fyrir um fjórtán árum síðan höfðu tveir ráðherrar Framsóknarflokksins frumkvæði að því að leggja upp í þá vegferð sem gengur undir nafninu »rammaáætlun«. Uppruninn liggur í áætlanagerð sem hófst þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra en málið komst fyrst á rekspöl í ráðherratíð Sivjar Friðleifsdóttur og Finns Ingólfssonar. Ákvörðun þeirra byggði á hugmynd um að skoða margar tillögur um virkjanir samtímis og draga þær í þrjá dilka; landsvæði sem vænlegt væri að virkja (nýtingarflokk), svæði sem skoða þyrfti betur (biðflokk) og svæði sem heppilegast væri að hlífa við virkjunarframkvæmdum (verndarflokk). Þáverandi formaður Landverndar, Jón Helgason, fyrrverandi forseti Alþingis, vann ötullega að því að koma þessu verkefni í gang. Markmiðið var að ná sem víðtækastri sátt um landnýtingu með víðtæku samráði, opnu matsferli og greiningu hæfustu sérfræðinga. Þær leikreglur sem fyrrgreindir ráðherrar lögðu grunn að voru lögfestar 16. maí 2011 í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í 6. gr. segir: »stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar«. Í skýringum við frumvarpið er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Einnig er tilgreind sú meginregla að hvers konar framkvæmdir og rannsóknir vegna virkjunarkosta í verndarflokki séu óheimilar.

Á vorþingi 2013 var samþykkt þingsályktun sem setur hugmyndir um Norðlingaölduveitu í verndarflokk. Mörk þess svæðis sem um er að ræða má skilgreina bæði með þeim lögskýringum sem að framan greinir og í skýrslu verkefnistjórnar rammaáætlunar. Ekki fer á milli mála að átt er við Þjórsá frá upphafskvíslum allt suður að Sultartangalóni. Þar sem vatnasviði að austan hefur þegar verið raskað með Kvíslaveitum er aðeins um vatnasviðið að vestan að ræða. Kvíslaveitur fékk Landsvirkjun á sínum tíma heimilaðar þegar ljóst var að veruleg andstaða var við allar hugmyndir um veitur eða virkjanir sem hefðu áhrif á Þjórsárver. Litu margir svo á að það væri sátt sem fæli í sér að ekki yrði frekar gengið á vatnasviðið í ofanverðri Þjórsá. Það varð því miður ekki reyndin.

Umhverfisráðherra boðaði til fundar 19. júní sl. (2013 innskot) þar sem ætlunin var að staðfesta stækkun friðlandsins um Þjórsárver á þann hátt að útlokaði Norðlingaölduveitu. Það var í góðu samræmi við fyrrnefnd lög, niðurstöðu rammaáætlunar og samþykkt Alþingis. Ráðherra hugðist gera það sem honum ber samkvæmt lögum, enda væri hann að öðrum kosti að ganga gegn lögum. Við þessi tíðindi greip Landsvirkjun til örþrifaráða. Fyrirtækið gleymdi loforðum að fara að niðurstöðu rammaáætlunar. Ráðherra var hótað lögsókn skrifaði hann undir. Þessi viðbrögð Landsvirkjunar sköpuðu tímabundna óvissu um hvort lögformlega væri rétt að öllu staðið. Nú hefur málið verið skoðað og ljóst er að rétt hefur verið að öllu staðið. Því ætti ekkert að vera að vanbúnaði fyrir umhverfisráðherra að fara að lögum og hefja hið snarasta undirbúning að friðlýsingu til að ljúka þeim deilum um þetta svæði sem staðið hafa í liðlega hálfa öld. Við sem trúum enn á réttarríkið Ísland treystum því að umhverfisráðherra gangi frá málinu, í samræmi við lög og þá hugmyndafræði sem ráðherrar Framsóknarflokksins lögðu grunn að, þegar vinna við rammaáætlun hófst árið 1999. Að breyta leikreglum nú yrði engum til vegsauka og skapaði réttaróvissu um niðurstöður rammaáætlunar í heild.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Að gerast félagi í Vinum Þjórsárvera

Vinsamlega sendið póst á gibba@pax.is með kt og símanúmeri til skráningar.

Árgjald 2018 er 1.000 kr og skal leggjast inn á reikningsnúmerið er  0536-26-014501, kt. 501111-0150.

Þau sem hafa bolmagn til að leggja félaginu til, þá væri slíkt vel þegið

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Vinir Þjórsárvera

Hvernig vinur?

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Bréfi til Vina Þjórsárvera, frá 3. janúar 2014

Bréfi til Vina Þjórsárvera frá 3. janúar 2014

Kæru félagar, gleðilegt ár.

Það er nokkuð liðið frá því að bréf hefur verið sent út til félaga og því löngu tímabært að flyta fréttir af starfi stjórnar.

Fyrst er að greina frá því að ekkert varð af aðalfundi félagsins s.l. sumar eins og boðað var í byrjun í júní. Þegar til kastanna kom var það veðrið sem setti strik í reikninginn og gönguferðin um Þjórsárver féll niður. Endurskoðaðir reikningar, skýrsla stjórnar og kjör stjórnar bíða því afgreiðslu aðalfundar sumarið 2014.

Stjórnin hefur þó ekki setið auðum höndum og hefur haft ýmsu að sinna undanfarin misseri. Þann 21. júní var áformað að skrifa undir nýjan friðlýsingarsáttmála um Þjórsárver sem hefði getað orðið lokapunktur í 41 árs baráttu fyrir að vernda svæðið fyrir virkjunarmannvirkjum. Því miður aflýst umhverfisráðherra fundi í Árnesi þar sem skrifa átti undir nýja og bætta friðlýsingarskilmála. Ástæðan var að Landsvirkjun kom með hótanir um málaferli ef ekki yrðir tekið tillit til hagsmuna fyrirtækisins.

Í kjölfarið hefur stjórn félagsins sent viðkomandi aðilum bréfi þar sem hvatt var til að farið verði að niðurstöðu rammaáætlunar. Einning voru skrifaðar blaðagreinar til að vekja athygli á málinu. Þá átti stjórnin fund með umhverfisráðherra 20. september s.l. Á fundinum upplýsti ráðherra að ákvörðun hans um að fresta frágangi málsins myndi ekki að hafa áhrif á hvar suðurmörk friðlandsins yrðu dregin. Annað hefur því miður komið á daginn. Þann 27. desember s.l. sendi umhverfisráðuneytið bréf til Skeiða- og Gnúpverjahrepps með tillögu að friðlandsmörkum þar sem búið var að draga suðurmörkin með þeim hætti að Landsvirkjun gæti komið þar fyrir veitumannvirkjum, fleygur inní friðlandið upp með Þjórsá við Eyvafenskrókinn. Friðlýsing á forsendum Landsvirkjunar. Það er ekki boðlegt.

Að mati stjórnar félagsins er ný tillaga umhverfisráðherra um friðlandsmörkin ekki í samræmi við gildandi lög og þingsályktun. Í lögum segir að „stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar“. Í skýringum við frumvarpið er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Áformin ganga einnig beinlínis gegn þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem tilgreinir að mannvirki rétt við friðlandið yrði lýti og beinir athyglinni að sérstæðum fossum í Þjórsá sem yrðu fyrir neikvæðum áhrifum Norðlingaölduveitu.

Stjórnin hefur haft samráð við Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Suðurlands. M.a. hefur það samráð leitt til þess að umhverfisráðherra hefur verið sent sameiginlegt erindi, eins og lesa má í meðfylgjandi bréfi þar sem tillögu umhverfisráðherra um suðurmörk friðlandsins er mótmælt.

Stjórn félagsins hefur leitað ráða hjá lögmönnum til að skoða lögformleg atriði er varða friðlýsingu Þjórsárvera. Það er lögmannstofan Réttur sem veitir leiðsögn í málinu og hefur skilað ganglegri greinargerð um það. Þessu fylgir að sjálfsögðu nokkur kostnaður og því er sjóður félagsins nú tómur og enn eftir að greiða hluta þess kostnaðar (100.000 kr). Félagar eru því hvattir til að greiða árgjaldið fyrir starfsárið 2013-2014 nú þegar. Árgjaldið er 500 kr. Þar sem félagar eru aðeins um 30 talsins er þörf á hærri framlögum frá félögum sem hafa fjárhagslegt bolmagn svo endar nái saman. Reikningsnúmerið er : 0536-26-014501, og kt. 501111-0150. Félagar eru hvattir til að bregast skjótt við og greiða sitt árgjald, og eftir getu viðbótarframlag.

Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera heldur áfram og félagið okkar Vinir Þjórsárvera verður á varðbergi og mun grípa til frekari aðgerða ef þörf krefur. Markmiðið er að ljúka 40 ára baráttu fyrir friðun svæðisins með stækkun friðlandsins í Þjórsárverum sem byggir á forsendum verndunar, en ekki virkjunar eins og nýtt útspil umhverfisráðherra ber með sér. Ef tilefni verður til mun málið enda fyrir dómsstólum.

Hollt er að minnast orða Guðmundar Páls Ólafssonar, eins stofnfélaga Vina Þjórsárvera. Í bók sinni Vatnið í náttúru Íslands kynnir hann nýja og framsækna hugmynd um Íslandsgarða. Þar segir hann m.a. „verndun lands verður að grundvallast á landslagsheildum – skilningi á vistkerfum – með öðrum orðum samhengi í náttúrunni.“ Sú tillaga sem umhverfisráðherra boðar nú er brot á þessu mikilvæga samhengi sem Guðmundur Páll beinir athyglinni að. Þetta samhengi verður að vera leiðarljós í nýju og stærra friðlandi Þjórsárvera.

Með góðri kveðju, frá stjórn félagsins

Sigþrúður Jónsdóttir
Árni Bragason
Tryggvi Felixson
Pálína Axelsdóttir Njarðvík
Óttar Ólafsson

Meðfylgjandi er bréf sem sent var til umhverfis- og auðlindaráðherra í dag.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd